Forráðamenn Manchester United, hafa sett af stað vinnu sem miðar að því að fara yfir þær öryggisráðstafanir sem eru gerðar í kringum knattspyrnustjóra liðsins, Ole Gunnar Solskjær eftir uppákomu um helgina. Mirror greindi frá.
Solskjær var að yfirgefa liðshótel Manchester United, Lowry Hotel, á bifreið sinni þegar að æstur stuðningsmaður elti bifreið hans.
Stuðningsmaðurinn var æstur í að fá eiginhandaráritun frá knattspyrnustjóranum, of æstur að mati forráðamanna Manchester United. Þeir hafa hins vegar ákveðið að líta málið ekki of alvarlegum augum þar sem svona atvik gerast ekki oft en hafa samt sem áður sett af stað vinnu til að skoða öryggisráðstafanir varðandi þjálfara og leikmenn.
Stuðningsmaðurinn elti bifreið Solskjær á hlaupum frá Lowry Hotel og að nærliggjandi umferðarljósum þar sem bíllinn staðnæmdist. Þar barði stuðningsmaðurinn á bílrúðurnar.