8 þúsund áhorfendur fá að mæta á úrslitaleik enska deildabikarsins á milli Manchester City og Tottenham þann 25.apríl. Leikið verður á Wembley. Breska ríkisstjórnin er að prófa sig áfram með það að hleypa áhorfendum aftur á vellina og verður leikurinn partur af þeirri tilraunastarfsemi.
Miðunum verður deilt á milli stuðningsmanna félaganna, fólks sem býr nálægt vellinum og heilbrigðisstarfsmanna. Á þessum leik verður hægt að sjá hvernig til tekst og í kjölfarið verður vonandi hægt að hleypa enn fleirum inn á knattspyrnuvellina á Englandi, sem og á aðra viðburði í landinu.
Einnig var gefið út á dögunum að 4 þúsund áhorfendur fái að mæta á annan undanúrslitaleik ensku bikarkeppninnar á milli Leicester og Southampton þann 15.maí. Á úrslitaleiknum í þeirri keppni er stefnt að því að hafa allt að 21 þúsund áhorfendur.
Framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins, Mark Bullingham, segir leikina þrjá mikilvægan þátt í því að fá áhorfendur aftur á vellina. Hann vonast til þess að hægt verði að fylla vellina á Evrópumóti karlalandsliða í sumar en þar fara nokkrir leikir fram í Englandi.
Bólusetningar gegn kórónuveirunni hafa gengið vel í Bretlandi. Áætlanir um að fá fólk aftur á vellina eru eftir því.