Leeds tók í dag á móti botnliði Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn var nokkuð fjörugur og endaði með 2-1 sigri heimamanna.
Leikmenn Leeds byrjuðu leikinn af krafti og var töluvert meira að gera hjá Ramsdale, markverði Sheffield United heldur en kollega hans hjá Leeds.
Harrison kom heimamönnum yfir eftir frábæran sprett hjá Raphinha en það var Osborn sem jafnaði metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks fyrir gestina.
Phil Jagielka varð fyrir því óláni snemma í seinni hálfleik að skora sjálfsmark og kom Leeds aftur í forystu. Leikurinn var áfram opinn og skemmtilegur en fleiri mörk voru ekki skoruð.
Leeds eru í 10. sæti deildarinnar eftir leikinn á meðan Sheffield United sitja sem fastast á botni deildarinnar, þrettán stigum frá öruggu sæti í deildinni.