Real Madrid tók á móti Eibar í 29. umferð spænsku deildarinnar í dag. Þar unnu Madrídingar nokkuð öruggan 2-0 sigur.
Fyrri hálfleikurinn var opinn og fjörugur og ljóst að bæði lið vildu sækja. Real Madrid voru sterkara liðið, héldu betur í boltann og sköpuðu hættulegri færi. Marco Asensio braut ísinn og kom þeim yfir eftir stoðsendingu frá Casemiro undir lok fyrri hálfleiks.
Tvö mörk voru dæmd af hjá Madrid í leiknum en Karim Benzema náði loks að tvöfalda forystu síns liðs á 73. mínútu með skalla eftir sendingu frá Vinícius Júnior. Ekki voru skoruð fleiri mörk í leiknum og þægilegur sigur Real Madrid staðreynd.
Madrídingar voru án fyrirliða síns, Sergio Ramos, í leiknum en hann meiddist í landsleikjahlénu. Næsti leikur Real Madrid er í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn Englandsmeisturum Liverpool.