Kelechi Iheanacho hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Leicester City. Með þessu verðlaunar félagið hann fyrir frábæra frammistöðu síðastliðinn mánuð en hann hefur skorað 7 mörk í síðustu fjórum leikjum og var valinn leikmaður marsmánaðar í ensku úrvalsdeildinni.
Iheanacho er sóknarmaður frá Nígeru og kom til Leicester City frá Manchester City 2017. Hann hefur að mestu verið í hlutverki varaskeifu fyrir Jamie Vardy á tíma sínum í Leicester en hefur blómstrað undanfarið.
„Ég get ekki komið því í orð hvernig mér líður. Ég er spenntur og hamingjusamur. Þetta er frábær stund og ég er ánægður að Leicester hafi gefið mér nýjan samning.“
„Það er frábært að vera hérna, þetta er eins og fjölskylda. Vonandi get ég verið hér í mörg ár í viðbót,“ sagði Iheanacho við vefsíðu Leicester City um nýja samninginn.
Iheanacho og félagar hans í Leicester taka á móti hans gamla félagi, Manchester City, í ensku úrvalsdeildinni á eftir og hefst leikurinn á slaginu 16:30.