Chelsea tók á móti West Bromwich Albion í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Leikurinn endaði með 2-5 sigri West Brom.
Jafnræði var með liðunum í byrjun en Chelsea voru þó ívið sterkari. Christian Pulisic braut ísinn á 28. mínútu með því að fylgja á eftir aukaspyrnu Marcos Alonso sem Johnstone varði í stöngina.
Mínútu síðar sá Thiago Silva rautt spjald þegar hann fékk sitt annað gula spjald eftir tæklingu á Okay Yokuslu og varð þar með elsti leikmaðurinn til að vera sendur út af í ensku úrvalsdeildinni. Fyrra gula spjaldið fékk hann fyrir brot á Pereira í byrjun leiks.
Það virðist hafa kveikt í gestunum þar sem Pereira skoraði tvö mörk fyrir WBA í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Í fyrra markinu vippaði hann skemmtilega yfir Mendy eftir stoðsendingu frá markverði sínum. Seinna markið skoraði Pereira með snyrtilegu skoti innan teigs þremur mínútum síðar.
Robinson bætti við þriðja markinu með frábærri afgreiðslu eftir flott spil West Brom á 63. mínútu og Diagne skoraði fjórða mark gestanna fimm mínútum seinna.
Mason Mount minnkaði muninn fyrir Chelsea aðeins þremur mínútum seinna eftir flottan samleik milli hans og Timo Werner. Robinson skoraði svo sitt annað mark þegar hann gulltryggði sigurinn með fimmta marki West Brom í uppbótartíma og þar við sat.
Chelsea tapar því mikilvægum stigum í Meistaradeildarbaráttunni en West Brom kemur sér í betri stöðu í botnbaráttunni í deildinni.