Danny Drinkwater miðjumaður í eigu Chelsea er maður einsamall þessa dagana eftir að Carlos Tozaki ákvað að gefa honum stígvélið. Drinkwater er nú á láni hjá Kasımpaşa í Tyrklandi.
Tozaki er frá Brasilíu en samband hennar við Drinkwater varði í 18 mánuði, lífið hefur oft verið auðveldara fyrir miðjumanninn.
Drinkwater náði hátindi ferilsins árið 2016 þegar hann varð enskur meistari með Leicester, ári síðar gekk hann í raðir Chelsea en síðan þá hefur ekkert gengið. Lífið hefur leikið hann grátt innan sem utan vallar.
„Þetta var mjög mikil orka sem fór í þetta samband okkar í 18 mánuði,“ sagði Tozaki þegar hún ákvað að tjá sig um sambandið.
Drinkwater hefur verið gripinn við að keyra fullur og önnur vandræði hans utan vallar hafa ratað í fréttir síðustu mánuði, þá hefur hann flakkað á milli liða en ekki fundið sig.
„Við vorum saman í gegnum merkileg augnablik, ég mun alltaf bera tilfinningar til hans.“
„Þetta var góður tími í mínu lífi en þetta var ekki það sem ég vildi, ég ákvað að setja meiri orku í feril minn sem fyrirsæta.“
Drinkwater hóf feril sinn hjá Manchester United en gekk í raðir Leicester árið 2012 og átti frábær fimm ár þar.