Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensk Toppfótbolta telur að meiri líkur en minni séu á því að keppnisfyrirkomulag í efstu deild karla verði breytt.
Ef svo yrði myndi leikjum í Pepsi-Max deild karla fjölga. Deildin yrði þó ennþá 12 liða þar sem spiluð yrði tvöföld umferð en henni yrði síðan skipt í tvo hluta þar sem efstu 6 liðin myndu keppa innbyrðis og neðstu sex liðin myndu keppa innbyrðis.
„Ég tel meiri líkur en minni að við séum að fara horfa á nýtt kepnisfyrirkomulag og að það taki gildi árið 2022. Það kom út yfirlýsing frá félögum í efstu deild í síðustu viku, þar sem að þau eru öll sammála því að fara þá leið,“ sagði Birgir í sjónvarpsþættinum 433.is í vikunni.
Hann telur að þetta fyrirkomulag gæti aukið verðmætasköpun deildarinnar. Öll félögin í Pepsi-Max deild karla sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þau styðja þetta fyrirkomulag og þá bættust einnig við níu lið í Lengjudeild karla í gær sem segjast styðja þessa leið.
„Við vorum búnir að skoða þetta fram og til baka í samráði við okkar sérfræðinga og við teljum að þetta fyrirkomulag með þessari úrslitakeppni gæti aukið verðgildi okkar sjónvarpssamninga. Við töldum þetta auka líkurnar á því að styrkja mótið og fá hærri greiðslur fyrir sjónvarpsréttinn.“
Nú er verið að leita að rétthafa fyrir efstu deildir knattspyrnunnar á Íslandi.
„Við gefum okkur þrjár vikur til þess að gefa aðilum sem hafa áhuga svigrúm, mynda sér skoðun á þessu og við munum taka við tlboðum til 16. apríl. Ferlið sjálft mun hins vegar taka í kringum 2-3 mánuði. Það er margt nýtt í þessu og þetta er stórt og mikið ferli.“
Ljóst er að það eru ekki aðeins innlendir aðilar sem hafa áhuga á því að eiga réttinn á deildunum hér heima.
„Jú það er mikill áhugi. Við erum líka að reyna að fara nýja leið. Fara nær þessari stafrænnu tækni sem er við lýði í dag. Það má kannski segja að við séum svolítið að leggja spilin í hendurnar á þeim aðilum sem bjóða í réttinn að koma fram með sínar tillögur og hugmyndir,“ sagði Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensk Toppfótbolta.
Viðtalið við Birgi og þáttinn í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.