Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkennir að það sé ekki undir sér komið að ákveða hvort Virgil Van Dijk, leikmaður Liverpool, muni taka þátt á Evrópumótinu í sumar með hollenska landsliðinu.
Van Dijk hefur verið frá vegna meiðsla á hné síðan í október á síðasta ári. Van Dijk þurfti að fara í aðgerð á hnénu og hefur síðustu mánuði verið í endurhæfingu sem gengur vel.
Það er ekki búist við því að hann nái að leika með Liverpool fyrir lok yfirstandandi leiktíðar en leikmaðurinn sjálfur hefur mikinn áhuga á að spila með hollenska landsliðinu á EM sem hefst í júní.
Klopp segir að svipaða sögu er að segja af Jordan Henderson sem hefur verið frá vegna meiðsla.
„Ég veit ekkert hvernig spilast úr þessu á EM, það hefur ekkert breyst. Þeir (leikmennirnir) eru á þeim stað í endurhæfingunni sem þeir eiga að vera á í augnablikinu.“
„Ég vil ekki taka leikmann frá Englandi eða Hollandi, ef þeir eru tilbúnir þá eru þeir tilbúnir, það er ekki undir mér komið að taka þessar ákvarðanir,“ sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.