Spænska stórveldið Real Madrid ætlar sér að semja við stórstjörnu í sumar og þar eru Mbappe og Haaland efstir á blaði. Til þess að fjármagna þau félagsskipti ætlar klúbburinn að selja einhvern af þeim leikmönnum sem eru nú á láni frá klúbbnum samkvæmt frétt AS.
Gareth Bale, Martin Odegaard og Dani Ceballos eru á meðal níu leikmanna sem eru á láni frá Real Madrid á þessari leiktíð og gæti félagið litið til þess að selja þá til að fjármagna önnur kaup. Allir þeir leikmenn sem eru á láni verða þó ekki seldir þrátt fyrir að vera um það bil fjórðungur af virði leikmannahópsins í heild.
Odegaard og Ceballos eru dýrustu leikmennirnir á þeim lista samkvæmt transfermarkt en Odegaard hefur spilað vel í liði Arsenal á þessari leiktíð. Þá er félagið æst í að losna við Gareth Bale og hans risastóra launatékka frá félaginu. Bale staðfesti fyrr í vikunni að hann færi aftur til Spánar eftir tímabilið og myndi tala við stjórn félagsins um framtíðina.
Norski framherjinn Haaland er metinn á 153 milljónir punda og franski heimsmeistarinn Mbappe á 128 milljónir punda. Það er því ljóst að Real Madrid þarf að taka vel til í leikmannahópnum sínum til að bæta öðrum hvorum þeirra við. Það er ljóst að Real Madrid verður ekki eina félagið sem reynir að næla í framherjana en Barcelona og Manchester City hafa einnig verið mikið í umræðunni.