Alastair Campbell segir að Alex Ferguson hafi verið ráðalaus gagnvart drykkju og framhjáhaldi Wayne Rooney á tíma þeirra saman í Manchester United en þetta kemur fram í The Sun.
Campbell segir þá frá samtali sem hann átti við Ferguson árið 2010 þar sem fréttir um Rooney og vændiskonur voru á forsíðum allra blaða í Englandi. Vandamál Rooney fóru verulega í taugarnar á liðsfélögum hans og óttaðist Ferguson hvaða afleiðingar það hefði. Þegar Campbell ræddi við Ferguson um þetta mál svaraði hann:
„Hvað get ég eiginlega gert í þessu?, hann er síðasti maðurinn sem ætti að vera að drekka.“
Rooney var ansi duglegur að koma sér í vandræði á fótboltaferli sínum og var reglulega á forsíðum slúðurblaðanna vegna drykkju og framhjáhalda. Þá hefur hjónaband hans við Coleen oft hangið á bláþræði. Árið 2009 komst það í fréttir að Rooney hefði haldið framhjá eiginkonu sinni með vændiskonunum Helen Wood og Jenny Thompson. Wood var nýlega í viðtali hjá Sunday People þar sem hún sagði:
„Áður hugsaði ég bara að ef hún vill vera áfram með honum þá er það henni að kenna. En núna er ég orðin eldri og þroskaðri og sé að hún er bara móðir sem vill halda fjölskyldunni saman. Það er mjög leiðinlegt fyrir hana að þetta sé notað til að skemmta fólki.“