Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari Íslands segist vera að vinna í því að fá liðið til að skora fleiri mörk. Íslenska liðið hefur ekki skorað í fyrstu tveimur leikjum Arnars í starfi en það vandamál er ekki nýtt. Íslenska liðið hefur átt í vandræðum með að skora frá því síðasta haust. Liðið hefur tapað síðustu sjö leikjum sínum með markatölunni 3-18.
Íslenska liðið heimsækir Liechtenstein á morgun í þriðja leiknum í undankeppni HM. „Þetta er rétt greining. Þetta eru staðreyndir. Ég hef alltaf trúað því að hver og einn fótboltaleikur hefur sitt eigið líf og mörg líf, Það eru möguleikar í hverjum einasta leik,“ sagði Arnar Þór um málið.
Íslenska þjóðin hefur tekið tapið gegn Armeníu mikið inn á sig á sunnudag. „Mín skoðun á leiknum gegn Armeníu hefur ekki breyst að því leytinu til að þetta var lokaður leikur með fá færi. Það voru ákveðin augnablik í leiknum þar sem við hefðum getað gert betur og skapað góð færi. Við fáum nokkur góð færi, horn og innköst sem voru hættuleg og við hefðum getað skorað í leiknum,“ sagði Arnar.
Íslenska liðið hefur æft sóknarleik sinn í dag og vonir standa til um að það beri árangur á morgun. „Þetta er eitt af þeim hlutverkum sem við erum í núna, að stilla þetta af og laga þennan hluta leiksins. Það er ljóst að fjögur mörk í svona mörgum leikjum er ekki nógu gott. Við viljum gera betur. VIð erum að vinna í þessum málum og tökum þetta skref fyrir skref. Í dag vorum við að æfa þennan hluta leiksins. Að búa til pláss og stöður sem geta skilað okkur mörkum.“