Ibrahima Konate, varnarmaður RB Leipzig í Þýskalandi, segir símann sinn hafa hringt stöðugt eftir að fréttir bárust af því í dag að Englandsmeistarar Liverpool væru búnir að bjóða í kappann.
Konate er nú staddur í Ungverjalandi í riðlakeppni Evrópumóts u-21 árs landsliða. Frakkar eru líklegir til árangurs á mótinu og etja kappi við Íslendinga á miðvikudag þar sem þeir geta tryggt sér sæti í átta liða úrslit mótsins.
Konate virtist ekki hafa áhuga á athyglinni sem fylgdi áhuga Liverpool og sagði við L‘Equipe:
„Ég vaknaði um morguninn og sá að síminn minn hringdi stöðugt. Mig langaði bara að segja við þá, ég spilaði í gær og er þreyttur, látið mig í friði,“ sagði Konate í samtali við franska fjölmiðilinn.
„Ég fylgist ekki með þessu, nú er Evrópumótið í gangi og svo fer ég aftur í félagið mitt. Ég get ekki verið að einbeita mér að öðru.“
Liverpool hafa verið í miklum meiðslavandræðum í vörninni á tímabilinu þar sem Van Dijk, Gomez og Matip glíma allir við langvarandi meiðsli. Það er því ekki skrítið að Liverpool sé að reyna að festa kaup á miðverði. Samningurinn er þó ekki í höfn þar sem Konate er með 40 milljón punda klásúlu og vilja Leipzig ekki selja hann undir því verði.