Mikið fjaðrafok hefur verið á samfélagsmiðlum í morgun og um helgina vegna fjarveru Viðars Arnar Kjartanssonar í landsliðshópi Íslands. Knattspyrnuspekingar og áhugamenn hafa rætt ákvörðunina fram og til baka, ekki eru allir á sama máli þegar kemur að ástæðu fjarverunnar.
Fyrr í dag var greint frá því að norska félagið Valerenga, lið Viðars, hafi bannað honum að spila með landsliðinu í þessum leikjum. Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, sagði það í samtali við RÚV. Hólmfríður Erna Kjartansdóttir, systir Viðars, svaraði frétt RÚV um málið. „Þetta er kjaftæði,“ sagði Hólmfríður um ummæli Arnars.
Fyrir stuttu greindi Hafliði Breiðfjörð eigandi Fótbolta.net frá því að hann hafi fengið að skoða tölvupósta KSÍ vegna málsins. Samkvæmt Hafliða kemur fram í þeim að Valerenga hafi í raun bannað Viðari að fara í verkefni landsliðsins.
„Í tölvupóstinum stendur að með vísan í tímabundnar reglur FIFA hvað varðar að sleppa leikmönnum í landsleiki er sem stendur ekki mögulegt að leyfa Viðari Erni að fara þar sem það myndi þýða sjö daga sóttkví þegar hann snýr aftur til Noregs,“ segir í frétt Hafliða Breiðfjörð á Fótbolta.net.
Ekki voru allir á sama máli um innihald póstsins sem um ræðir en nú hefur Hólmfríður Erna birt þennan umdeilda tölvupóst á Twitter-síðu sinni. „Fyrst að fjölmiðlar eru búnir að sjá samskiptin, hlýtur að vera í lagi að pósta þeim hér. Lesi hver í þau eins og hann vill. Þeir völdu VÖK aldrei í landsliðið. Þarf ekki að segja meira, punktur.“
Fyrst að fjölmiðlar eru búnir að sjá samskiptin, hlýtur að vera í lagi að pósta þeim hér. Lesi hver í þau eins og hann vill. Þeir völdu VÖK aldrei í landsliðið. Þarf ekki að segja meira, punktur. pic.twitter.com/FP5Ye4lq3W
— Hólmfríður Erna Kjartansdóttir (@holmfridurerna) March 29, 2021