Arar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands segir að ummæli Guðjóns Þórðarsonar í gær vera hrein og klár ósannindi. Þetta kemur fram á Twitter síðu RÚV.
Guðjón Þórðarson sagði í gær að ósætti væri á milli Gylfa Þórs Sigurðssonar og Eiðs Smára Guðjohnsen aðstoðarþjálfara landsliðsins. Gylfi er ekki í landsliðshópnum sem nú er í verkefni en eiginkona hans á von á þeirra fyrsta barni.
„Það sem ég er búinn að heyra í nokkra daga er að það sé ágreiningur eða núningur, þú getur kallað það hvað sem, á milli Gylfa og hugsanlegrar stöðunnar hjá Eiði Smára,“ sagði Guðjón í hlaðvarpsþættinum, The Mike Show í gær.
„Það er ekki góðs viti ef það er einhver núningur þar innan vébanda eða innan liðsins. Ég veit ekkert hvernig það er en þetta er það sem maður heyrir. Forystan þarf þá að koma fram og segja að það sé bara alls ekki.“
Gylfi Þór hefur verið besti leikmaður Íslands síðustu árin en Arnar Þór og Eiður Smári eru í sínu fyrsta verkefni sem þjálfarar, þeir hafa tapað gegn Þýskalandi og svo Armeníu í gær. „Það heyrist að Gylfi sé ósáttur við þá sem stöðu sem uppi er og upp hefur komið. Ég þekki það ekki en þetta er það sem maður heyrir. Ef að það eru einhver vandamál þá þarf að leysa þau og standa saman og stíga saman í sömu átt,“ sagði Guðjón í gær en Arnar Þór blæs á kjaftasöguna.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, segir ummæli Guðjóns Þórðarsonar um samband Eiðs Smára og Gylfa Þórs hrein og klár ósannindi.
Þá leyfði Vålerenga Viðari Erni Kjartanssyni ekki að fara í landsliðsverkefni. Því var aldrei í boði að velja Viðar.
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) March 29, 2021