Armenía tók á móti Íslandi í undankeppni HM í dag. Leiknum lauk með 2-0 sigri Armena en leikið var í Armeníu.
Um gríðarlega mikilvægan leik var að ræða fyrir íslenska landsliðið sem byrjaði undankeppnina á 3-0 tapi gegn Þýskalandi.
Hér verður farið yfir það jákvæða og það neikvæða í leik íslenska liðsins.
Plús:
Innkoma Kolbeins í liðið á 55. mínútu blés smá lífi í sóknarleik Íslands.
Mínus:
Klaufalegar og misheppnaðar sendingar voru allt of margar. Hefði getað endað illa eins og á 51. mínútu er hætta skapaðist að marki Íslendinga eftir misheppnaða sendingu Sverris sem Armenar komust inn í.
Gekk illa að binda endahnútinn á sóknir íslenska liðsins með skoti að marki.
Flatir í marki Armena, í stað þess að pressa á markaskorarann falla varnarmenn Íslands til baka. Ekkert tekið af markaskorara Armena, vel klárað hjá honum en varnarleikurinn ekki til útflutnings.
Það sama er hægt að segja í öðru marki Armena, Khoren Bayramyan, markaskorari Armeníu, var óáreittur inn í vítateig Íslands og fékk allt of mikið af plássi til að athafna sig.
Íslenska liðið var alls ekki sannfærandi í leiknum, liðið á erfitt með að skora mörk og varnarleikur liðsins í mörkunum tveimur ekki nægilega góður.
Ísland er strax komið með bakið upp við vegg í undankeppninni og er farið að elta liðin fyrir ofan sig. Engin stig eftir tvær umferðir.