Kolbeinn Birgir Finnson, leikmaður íslenska u-21 árs landsliðsins, var í byrjunarliði liðsins í 2-0 tapi gegn Danmörku í dag. Kolbeinn lék allan leikinn í liði Íslands.
Hann er svekktur með byrjun íslenska liðsins en ánægður með það hvernig liðið brást við eftir að hafa lent undir.
„Við erum fyrst og fremst bara svekktir að hafa farið tómhentir úr þessum leik. Svekktir með byrjunina og að hafa fengið á okkur ódýr mörk í byrjun.“
„Upplifun mín af leiknum er sú að við rifum okkur í gang í seinni hálfleik og sýndum úr hverju við erum gerðir.“
Íslenska liðið kom ákveðnara til leiks í seinni hálfleik, hvað var sagt í hálfleik?
„Það voru gerðar ákveðnar, litlar taktískar breytingar sem við lögðum upp með. Mér fannst það virka á köflum mjög vel , við ætluðum að stíga aðeins betur á móti þeim, því við fundum að þegar að við gerðum það lentu þeir í veseni.“
Ísland á litla möguleika á að komast upp úr sínum riðli eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í keppninni. Síðasti leikur liðsins í riðlinum er gegn Frakklandi þann 31. mars næstkomandi.
„Við ætlum auðvitað bara að fara í þann leik til að vinna hann. Við spilum bara upp á stoltið, þetta gæti verið síðasti leikurinn sem margir af okkur eru að spila saman. Við ætlum bara að njóta þess og gefa allt í þetta,“ sagði Kolbeinn Birgir Finnsson, leikmaður u-21 árs landsliðs Íslands.