Íslenska karlalandsliðið tapaði í dag 2-0 fyrir Armeníu á útivelli í undankeppni HM. Íslands er án stiga eftir fyrstu tvær umferðir undankeppninnar og á leik gegn Liechtenstein á miðvikudaginn.
„Gamla bandið var endanlega borið til grafar í dag,“ sagði Hjörvar Hafliðason, umsjónarmaður hlaðvarpsþáttarins Dr.Football í upphafi þáttar í dag.
Kristján Óli Sigurðssson, einn af gestum þáttarins, var ekki hrifinn af leik íslenska liðsins.
„Þetta er ekki boðlegt. Hvert var leikskipulagið? Hvernig á besta lið Íslands að líta út þegar að það vantar leikstjórann. Þetta var skelfilegt, við áttum varla færi í leiknum.“
„Við vorum að spila á móti Armeníu, sem er, með fullri virðingu fyrir þeim, léleg fótboltaþjóð. Þetta var úrslitastund fyrir okkur til að reyna vera í baráttu um sæti á HM í þessum riðli,“ sagði Kristján Óli í Dr. Football.
Hann var þá spurður út í það hvort möguleikar Íslands um að komast á HM væru úti.
„Menn geta farið til Katar á næsta ári en íslenska landsliði fer bara þangað sem ferðamenn, aldrei sem leikmenn,“ var svar Kristjáns Óla.
„Við erum með þessa einstöku kynslóð sem við höfum margoft þakkað fyrir. Nú er bara allt í lagi að segja hlutina eins og þeir eru.“
„Við erum með mjög fullorðið lið. Þetta eru sömu bakverðir og voru fyrir 10 árum síðan,“ sagði Hjörvar og þuldi upp nöfnin á nokkrum þeim sem hafa skipað byrjunarlið Íslands undanfarin ár og nefndi síðan þá leikmenn sem yngri eru og verma varamannabekk liðsins.
„Erum við að velja besta liðið okkar eða erum við að treysta á að þessir leikmenn sem eru búnir að koma okkur langt, geri það enn eina ferðina?“ sagði Hjörvar Hafliðason, umsjónarmaður Dr. Football.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.