Ísland og Danmörk mættust í riðlakeppni EM u-21 árs landsliða í dag. Leiknum lauk með 2-0 sigri Danmerkur. Leikið var í Györ í Ungverjalandi.
Íslensku leikmennirnir vildu koma sér á rétt skrið eftir sannfærandi tap gegn Rússlandi á dögunum en Danir byrjuðu leikinn betur.
Gustav Isaksen kom Dönum yfir með marki strax á 5. mínútu leiksins. Markið kom eftir flott samspil danska liðsins.
Danir voru mun meira með boltann í upphafi leiks og á 19. mínútu skoraði Mads Bech annað mark liðsins eftir klaufagang í íslensku vörninni.
Íslenska liðið vaknaði eftir þetta áfall og greina mátti bættan leik liðsins. Á 39. mínútu var brotið á Ísaki Óla Ólafssyni innan vítateigs Danmerkur og vítaspyrna dæmd.
Sveinn Aron Guðjohnsen tók spyrnuna en brást bogalistin og lét leiðsfélaga sinn hjá OB í Danmörku, Oliver Christensen, verja frá sér.
Íslenska liðið kom ákveðnara til leiks í seinni hálfleik og átti fínar rispur án þess þó að geta minnkað muninn og leiknum lauk með 2-0 sigri Danmerkur.
Ísland er eftir leikinn stigalaust í neðsta sæti riðilsins eftir tvær umferðir. Liðið hefur skorað 1 mark og fengið á sig 6 mörk.
Íslenska liðið á eftir að spila einn leik í riðlinum á móti Frakklandi. Sá leikur fer fram þann 31. mars næstkomandi.