Knattspyrnukonan Rhali Dobson felldi tár eftir síðasta leik sinn í áströlsku úrvalsdeildinni, en kærasti hennar, Matt Stonham, bað hana um að giftast sér á hliðarlínunni að leikslokum.
Rhali Dobson, sem spilaði með Melbourne City ákvað að leggja skóna á hilluna snemma, eða einungis 28 ára gömul. Ástæðan er sú að hún vill hjálpa áðurnefndum unnusta sínum, Matt Stonham, sem er að berjast við krabbamein í heila.
Dagurinn verður lengi í minnum hafður hjá Rhali og Matt, en hún skoraði mark í 2-1 sigri á Perth Glory, og ekki nóg með það, heldur sagði hún einnig „já“ við bónorðinu. Stuttu eftir má sjá liðfélaga hennar umkringja parið og við tók risastórt hópknús. Þá má heyra einn lýsanda leiksins segja: „Við erum að verða vitni að einu fallegasta augnabliki í sögu deildarinnar.“
Nú hefur verið greint frá því að Rhali hafi tvisvar sinnum beðið Matt um að giftast sér seinustu vikur, en þá hafi hann hlegið að hugmyndinni. Í viðtali eftir leikinn og atvikið sagði hún: „Þetta hefur meiri þýðingu en íþróttir. Hann er heimurinn minn,“
„Ég hafði látið lítið fyrir þessu fara, vegna þess að ég vildi að liðið gæti haldið einbeitingu svo við gætum átt góðan endi á tímabilinu.“
„Þær vissu að Matt hefði farið í aðgerð og svoleiðis, og höfðu sýnt okkur mikinn stuðning.“
Myndir og myndband af atvikinu hafa farið eins og eldur um sina um samfélagsmiðla, enda er augnablikið gífurlega hjartnæmt. Sjá má myndbandið hér að neðan.
What an UNBELIEVABLE moment as @rhali_dobson‘s partner proposes to her after the game! AHH! 😍😭#WLeague #MCYvPER pic.twitter.com/2RDSld3L5J
— Westfield W-League (@WLeague) March 25, 2021