Fredrik Risp umboðsmaður Ragnars Sigurðssonar segir að fréttir um að hann hafi rift samningi sínum við Rukh Lviv í Úkraínu séu ekki réttar.
Í hlaðvarpsþættinum The Mike Show var sagt frá því að Ragnar hefði rift samningi sínum í Úkraínu, Ragnar samdi við liðið fyrr á þessu ári og hefur spilað einn leik. Liðið er í fallbaráttu í Úkraínu.
„Mér skilst að það sé búið að rifta samningnum í Úkraínu, að hann hafi viljað hætta eða hvað það var,“ sagði Mikael Nikulásson í hlaðvarpsþætti sínum í dag.
Fredrik Risp sem séð hefur um mál Ragnars síðustu ár segir þetta ekki rétt. „Hann hefur ekki rift neinum samningi. Hvar heyrðir þú þetta?,“ sagði Fredrik Risp umboðsmaður Ragnars. Þegar blaðamaður tjáði honum að þetta hefði komið fram í íslenskum hlaðvarpsþætti, ítrekaði hann fyrra svar.
„Ragnar hefur ekki rift neinum samningi,“ sagði Risp um málið en Ragnar var ónotaður varamaður í leiknum gegn Þýskalandi í gær, allar líkur eru á að hann byrji gegn Armeníu á sunnudag.
Risp á og rekur Rispect Sports Agency en samkvæmt heimasíðu félagsins eru Kári Árnason, Guðmundur Þórarinsson og Arnór Smárason leikmaður Vals einnig á hans snærum.