„Nei, ekki beint. Það er erfitt að vera ánægður með sjálfan sig þegar liðið tapar.“ sagði Sveinn Aron Guðjohnsen sem var á skotskónum þegar U21 árs landslið Íslands tapaði gegn Rússlandi í fyrsta leik Evrópumótsins í gær. Framherjinn knái hefur átt frábæru gengi að fagna með U21 árs liðinu undanfarna mánuði.
Sveinn var stoltur af því að spila sinn fyrsta leik á stórmóti, þó illa hefði farið. „Það var bara geggjuð tilfinning, við erum stoltir af því að vera hérna og vera valdir í hópinn. Ég hafði ekki áhyggjur fram að fyrsta markinu, við vorum með stjórn á varnarleiknum. Það hafa allir leikir verið þannig að hitt liðið er mikið með boltann,“ sagði Sveinn en Rússar unnu að lokum 4-1 sigur.
Næst leikur liðið við Dani og síðan er leikur gegn Frakklandi. „Við förum í alla leiki til að vinna þá,.“
Sveinn er á mála hjá OB í Danmörku en hefur fá tækifæri fengið til þessa. „Staðan hjá OB hefur ekki verið góð, ég hef ekkert fengið að spila. Vonandi breytist það núna á næstu vikum. Það er erfitt að fá ekki að vera með í leikjum, maður þarf að sýna þolinmæði og æfa vel. Halda sér í formi, það var ekkert ósætti. Það var bara þannig að það var lítið talað við mig, af hverju ég væri ekki að spila. Það var staðan.“
Sveinn segist ekki horfa á þetta mót sem glugga fyrir sig til að komast annað. „Já og nei, ég lít á þetta mót þannig að við ætlum okkur að komast áfram sem U21 lið. Það sem gerist eftir það, kemur i ljos.“
Sveinn hefur blómstrað með U21 árs liðinu, veit hann af hverju það besta kemur fram í hans leik í bláu treyjunni? „Ég veit það ekki, ég hef fengið mikið traust frá þjálfurunum og mínútum. Þetta hefur virkað.“
Davíð Snorri Jónasson stýrði liðinu í fyrsta sinn í gær en hann tók við þegar Arnar Viðarsson og Eiður Smári, faðir Sveins tóku við A-landsliðinu. „Nei það hefur ekkert þannig séð breyst, hann er nánast búinn að gera það sama og Addi og pabbi. Það er öðruvísi að vera með nýjan þjálfara en í rauninni hefur ekkert breyst.“