Davið Snorri, landsliðsþjálfari u-21 árs landsliðsins var að vonum svekktur á blaðamannafundi eftir 4-1 tap íslenska liðsins gegn Rússlandi í kvöld
„Mjög svekkjandi úrslit og erfiður leikur þá sérstaklega þessi kafli sem við lendum í eltingarleik. Við komum þó aðeins betur stemmdir inn í seinni hálfleik,“ sagði Davíð á blaðamannafundi eftir leik.
Hann hrósar strákunum í íslenska liðinu fyrir að hafa aldrei gefist upp í erfiðum aðstæðum.
„Við skorum gott mark í stöðunni 4-0, það var aldrei inn í myndinni að gefast upp og hrós á strákana fyrir að stíga upp úr erfiðum kafla,“sagði Davíð Snorri.
Hann segir að það þýði ekkert að dvelja lengi við þessi úrslit, það sé nóg eftir af mótinu.
„Ég held að allir vilji stíga upp eftir þetta, auðvitað erum við svekktir í kvöld, eðlilega. Það er mikið sem fer í gegnum hausinn á mönnum þessa stundina.“
„Við þurfum bara að klára þennan leik í fyrramálið og halda áfram. Við höfum tvo daga til að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn Dönum, við verðum bara að halda áfram,“ sagði Davíð Snorri, landsliðsþjálfari
Hann segir ekkert athugavert hafa verið við undirbúning íslenska liðsins sem gaf til kynna að illa myndi fara í kvöld.
„Við vorum vel fókuseraðir og vorum búnir að gera allt sem við gátum til að undirbúa okkur, bæði leikmenn og þjálfarar. Við vorum vel stemmdir þegar að við mættum hingað í dag, við bara lentum í vondum kafla, það gerist,“ sagði Davíð Snorri.
Næsti leikur íslenska liðsins er á sunnudaginn gegn Dönum.