Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur samkvæmt heimildum AS, haft ítrekað samband við samlanda sinn hjá Dortmund, framherjann Erik Braut Haaland.
Ástæða símtalanna er sú að Solskjær vill ólmur fá markaskorarann til liðs við Manchester United.
Saga Solskjær og Haaland nær aftur til tímans þegar Solskjær var knattspyrnustjóri Molde og Haaland gekk til liðs við liðið. Þar unnu þeir saman allt þar til ársins 2018, þegar að Solskjær lét af störfum hjá Molde.
Haaland er einn mest spennandi ungi leikmaðurinn í Evrópu og hefur raðað inn mörkum hjá Dortmund. Hann hefur spilað 49 leiki fyrir félagið og skorað 49 mörk í þokkabót.
Manchester United er í leit að nýjum framherja og samkvæmt spænska fjölmiðlinum AS er Solskjær í stöðugu sambandi við Haaland.