Mikael Neville Anderson, leikmaður Midtjylland í Danmörku er með u-21 árs landsliði Íslands sem hefur leik í lokakeppni EM á fimmtudaginn.
Þetta verkefni u-21 árs landsliðs Íslands, sem er lokakeppni EM, markar endurkomu Mikaels í u-21 árs landsliðið. Athygli vakti á sínum tíma að Mikael tók ekki þátt í mikilvægum leikjum liðsins í undankeppni EM í fyrra.
Mikael útskýrði málið nánar í viðtali sem birtist í íþróttafréttatíma RÚV í kvöld.
„Þetta var svo flókið mál, ég var að ganga í gegnum erfiða tíma hjá Midtjylland og var ekki að spila eins mikið og ég hefði viljað. Það var bikarleikur hjá Midtjylland í landsleikjahléinu sem forráðamenn Midtjylland vildu að ég myndi spila til að koma mér aðeins nær liðinu,“ sagði Mikael í samtali við RÚV.
Hann segir að misskilningur í samskiptum hefðu verið aðal orsökin fyrir þeirri ringulreið sem skapaðist á þessum tíma. Sögusagnir spruttu upp á þessum tíma þess efnis að Mikael hefði ekki áhuga á að spila fyrir liðið þar sem hann hefði spilað með A-landsliðinu áður.
„Ég talaði við Adda (Arnar Þór, þjálfara u-21 á þessum tíma) eftir á og það eina sem hann sagði að ég hefði átt að gera var að hringja í hann. Ég talaði reyndar bara við Erik Hamrén (þjálfara A-landsliðs) á þeim tíma, þá kom upp misskilningur og hann kannski taldi að mig langaði ekki að spila fyrir u-21 árs landsliðið sem er alls ekki satt. Fólk misskildi mig alveg, fólk þekkir mig ekki eins vel og það þekkir aðra,“ sagði Mikael Neville Anderson, leikmaður u-21 árs landsliðs Íslands í samtali við RÚV