Danny Murphy sérfræðingur um enska boltann og fyrrum leikmaður Liverpool telur að Ole Gunnar Solskjær verði rekinn úr starfi hjá Manchester United ef hann vinnur ekki Evrópudeildina.
United féll úr leik í enska bikarnum um liðna helgi, liðið féll úr leik í átta liða úrslitum gegn Leicester.
Solskjær hefur farið langt í flestum útsláttarkeppnum en rennur oftar en ekki á rassinn þegar úrslitaleikurinn nálgast.
„Þeir geta ekki kennt þreytu um frammistöðuna gegn Leicester, að United sé að berjast í Evrópudeildinni er ekki gott. Félagið veit það og Ole Gunnar veit það,“ sagði Murphy.
„Ég kann vel við Solskjær og ég vil ekki sjá stjóra missa starfið. Liðið hefur bætt sig en Manchester United verður að gera betur. Að komast ekki áfram í Meistaradeildinni var högg fyrir þá. Þeir verða í efstu fjórum sætunum en þar eiga þeir líka að vera.“
United er komið í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar þar sem liðið mætir Granada.
„Ef liðið vinnur ekki Evrópudeildina, verða bara í topp fjórum og búið. Þá eiga þeir að skipta um þjálfara.“