Lars Lagerback er mættur aftur til starfa hjá Íslandi en þessi 72 ára gamli Svíi er nú í öðru hlutverki en áður. Lagerback var þjálfari Íslands frá 2011 til 2016 en lét af störfum eftir magnaðan árangur á Evrópumótinu í Frakklandi.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen lögðu mikla áherslu á það að fá Lagerback inn í teymi sitt þegar þeir tóku við í desember. Eftir nokkra fundi var Lagerback klár í slaginn og hann er nú með íslenska landsliðinu í Þýskalandi. Íslenska liðið hefur leik í undankeppni HM á fimmtudag en liðið leikur þrjá leiki í þessari törn, eftir leikinn við Þýskaland taka við leikir gegn Armeníu og Liechtenstein.
Ítarlegt viðtal við Lagerback birtist á vefnum í kvöld.
Fram kom á sunnudag að Gylfi Þór Sigurðsson hefði dregið sig út úr íslenska landsliðshópnum, ástæðan er sú að eiginkona hans á von á þeirra fyrsta barni innan tíðar. Blóðtakan fyrir Ísland er gríðarleg enda Gylfi verið yfirburðar besti leikmaður liðsins í mörg ár. Víðir Sigurðsson blaðamaður á Morgunblaðinu bendir á magnaða staðreynd um Gylfa og hans mikilvægi í íslenska landsliðinu.
Þar kemur meðal annars fram að Gylfi Þór hafi misst af einum leik af síðustu 52 í undankeppni EM eða HM. Um er að ræða leiki frá árinu 2021 þegar bestu ár Íslands í fótbolta voru að hefjast.
Að auki hefur Gylfi misst af fimm leikjum í Þjóðadeildinni síðustu rúmu tvö ár. Árangur Íslands á Gylfa er vægast sagt slakur en í heildina hefur Gylfi misst af sex leikjum og Ísland hefur tapað þeim öllum. „Ég vissi það reyndar ekki, það hljómar ekki vel,“ sagði Lagerback í viðtali við 433.is í dag en ítarlegt viðtal við Lagerback birtist í kvöld.
Lagerback segir að liðið muni án nokkurs vafa sakna Gylfa en það þurfi að finna lausnir í fjarveru hans. „Það er áskorun fyrir okkur að reyna að laga það. Gylfi er í mínum augum einn af þeim bestu þegar þú horfir á miðjumann sem getur spilað í báðar áttir. Hann getur varist og sótt, hann er með frábæran hægri fót og leggur mikið á sig fyrir liðið.“
„Þú saknar hans alltaf ef hann er ekki, við verðum að einbeita okkur að þeim sem eru hérna og þeir verða að fylla í hans skarð,“ sagði Lagerback.
Ítarlegt viðtal við Lagerback birtist á vefnum í kvöld.