Pressan er farin að aukast á Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United eftir að liðið féll úr leik í enska bikarnum eftir 3-1 tap gegn Leicester City í gær.
Danny Murphy, fyrrverandi leikmaður liða á borð við Liverpool og Fulham, telur að Solskjær verði rekinn takist honum ekki að vinna Evrópudeildina sem er auðveldasta leið Manchester United að titli þetta tímabilið.
„Það að Manchester United sé að keppa í Evrópudeildinni er ekki nógu gott fyrir félagið, fyrst og fremst vita stuðningsmenn liðsins það en Solskjær veit það líka,“ sagði Danny Murphy í viðtali á TalkSport.
Manchester United féll úr leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og er komið í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar, á litla sem enga möguleika á sigri í ensku úrvalsdeildinni og er úr leik í bikarkeppnum á Englandi.
„Mér líkar við hann (Solskjær), ég vil ekki sjá knattspyrnustjóra rekna og ég tel að liðið hafi tekið framfaraskref en Manchester United á að vera gera betur.“
„Ef liðið vinnur ekki Evrópudeildina og endar bara í topp fjórum sætunum í ensku úrvalsdeildinni, tel ég að það muni verða stjórabreytingar,“ sagði Danny Murphy á Talksport.