„Ég hata þetta,“ öskraði Erling Haaland um helgina og átti þar við gengi Borussia Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni. Framherjinn var ekki sáttur eftir 2-2 jafntefli liðsins gegn Köln um helgina. Haaland gerði sitt og skoraði tvö mörk í leiknum en það sama verður ekki sagt um samherja hans.
Haaland hefur verið í mögnuðu formi í rúmt ár hjá Dortmund og virðist ekkert geta stoppað framherjann frá Noregi.
Þegar flautað var til leiksloka sauð á Haaland, hann kastaði treyju sinni í leikmann Köln og rauk sig af vellinum. Það var reiði í andliti norska framherjans.
Haaland er sagður hafa látið Mino Raiola, umboðsmann sinn vita að hann fari frá Dortmund ef liðinu mistekst að komast í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Dortmund er fjórum stigum frá Meistaradeildarsæti þegar átta leikir eru eftir.
Haaland er efstur á óskalista Real Madrid í sumar samkvæmt frétt AS en Manchester City og Manchester United hafa gríðarlegan áhuga.