Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Rangers og fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins og Liverpool, er ósáttur með ákvörðun Gareth Southgate, landsliðsþjálfara Englands að velja ekki Trent Alexander-Arnold í landsliðið.
Gerrard telur að Southgate hefði átt að sýna Alexander -Arnold meiri stuðning en leikmaðurinn hefur gengið í gegnum erfiða tíma innan vallar upp á síðkastið. Gerrard telur hann vera „besta bakvörð Englands.“
„Southgate tekur þessa ákvörðun, ég er ekki sammála þeirri ákvörðun en ég er heldur ekki landsliðsþjálfari Englands. Ég tel að Alexander-Arnold sé besti bakvörður Englands,“ sagði Gerrard í viðtali hjá The Athletic.
Ástæða Southgate fyrir því að velja Alexander-Arnold ekki í næsta landsliðsverkefni var byggð á þeim rökum að Reece James og Kieran Trippier, væru að spila betur og að Alexander-Arnold væri því óheppinn með að hafa ekki verið valinn.
„Trent er heimsklassa hægri-bakvörður, hann er besti hægri-bakvörður landsins og við eigum aðra frábæra hægri-bakverði,“ sagði Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Rangers.