Tryggva Guðmundssyni var í gær sagt upp störfum sem þjálfari Kormáks/Hvatar. Tryggvi var ráðinn þjálfari liðsins 24 febrúar.
Fótbolti.net fullyrti í gær að Tryggvi hafi mætt undir áhrifum áfengis í leik liðsins í gær og verið vikið úr starfi.
„Stjórn meistaraflokksráðs hefur sagt upp samningi við Tryggvi sem þjálfara liðsins. Við þurfum ekki að fara í langt mál með ástæðurnar,“ skrifar Björgvin Brynjólfsson formaður meistaraflokksráðs félagsins í bréfi sem hann sendi leikmönnum í gær.
Tryggvi var kynntur þjálfari liðsins fyrir 24 dögum en Björgin segir þetta hafa ekki gengið upp í bréfi sínu til leikmanna. „Þetta var tilraun sem mistókst,“ skrifar Björgvin.
Tryggva þarf ekki að kynna fyrir knattspyrnuáhugafólki en hann átti afar farsælan feril hér á landi með ÍBV, KR og FH. Hann náði góðum árangri erlendis og spilaði fjölda landsleikja. Hann er markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi.
Tryggvi hefur ágætis reynslu af þjálfun en hann var um tíma aðstoðarþjálfari ÍBV og stýrði svo Vængjum Júpíters í 3 deild karla.
Fullyrt að Tryggvi Guðmundsson hafi verið rekinn fyrir að mæta ölvaður