PAOK tók á móti AEK í grísku úrvalsdeildinni í kvöld. Leiknum lauk með 3-1 sigri PAOK en leikið var á heimavelli liðsins, Stadio Toumbas.
Sverrir Ingi Ingason var í byrjunarliði PAOK, spilaði allan leikinn og átti stoðsendingu í fyrsta marki leiksins sem kom strax á 3. mínútu. Það skoraði Andrija Zivkovic.
Þannig stóðu leikar allt þar til í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar að Nelson Oliveira jafnaði leikinn fyrir AEK.
Í upphafi síðari hálfleiks kom Karol Swiderski, PAOK yfir með marki eftir stoðsendingu frá Christos Tzolis og það var síðan Andrija Zivkovic, sem innsiglaði 3-1 sigur PAOK með marki á 89. mínútu.
PAOK er eftir leikinn í 3. sæti grísku úrvalsdeildarinnar með 50 stig, búið er að tvípskipta deildinni og er PAOK í efsta hlutanum með hinum fimm efstu liðum deildarinnar.
Olympiakos er með gott forskot á toppnum með 70 stig, 19 stigum meira en næsta lið sem er Aris.