Vikan var ekki góð hjá Tottenham því auk þess að detta úr leik í Evrópudeildinni þá tapaði liðið fyrir erkifjendunum í Arsenal síðasta sunnudag 2-1.
The Sun segir að ástandið hjá Spurs sé svo slæmt að andrúmsloftinu á æfingasvæðinu þessa dagana sé lýst sem „ömurlegu“. Heimildarmaður blaðsins sagði að leikmenn séu allt annað en hamingjusamir og það sé allt annað en auðvelt að undirbúa sig undir leikinn gegn Aston Villa í úrvalsdeildinni á morgun.
Mourinho gagnrýndi leikmenn sína eftir tapið gegn Dinamo Zagreb og það gerði hann einnig eftir tapið á móti Arsenal. Eftir ósigurinn á fimmtudaginn sagði hann að kvöldið hafi verið eitt það erfiðasta á ferli hans, jafnvel það erfiðasta.
Þegar hann var spurður hvað hann vildi sjá hjá leikmönnum sínum á morgun gegn Aston Villa sagði hann: „Þetta er sama spurningin og ég fékk eftir leikinn gegn Arsenal – og ég sá það ekki í Zagreb sem ég vildi sjá. Þess vegna er erfitt að segja til um það því ég bjóst við öðru hugarfari en það skilaði sér ekki.“