Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist vera ákveðinn í því að taka sér ársfrí frá þjálfun þegar að hann yfirgefur Liverpool.
Klopp er með samning við Liverpool fram á mitt ár 2024 og segist hafa gert samkomulag við fjölskyldu sína að taka sér frí frá knattspyrnu þegar að stjóratíð hans hjá Liverpool tekur enda.
„Eitt er á hreinu, þegar að tíma mínum hjá Liverpool lýkur er öruggt að ég tek mér ársfrí. Enginn þarf að hringja í mig, ekki eftir fjóra mánuði og ekki eftir sex mánuði. Það skiptir ekki máli hver það er sem hringir og býður mér starf, ég tek mér ársfrí,“ sagði Klopp í viðtali við Bild.
Klopp hefur stýrt Liverpool til sigurs í Meistaradeild Evrópu og ensku úrvalsdeildinni. Hann er vel liðinn í Bítlaborginni og er meðal færustu knattspyrnustjóra í heimi.
Það er klárt mál að hann verður eftirsóttur er hann yfirgefur Liverpool.