„Við þurftum að tilkynna hópinn til UEFA á sunnudag, við vildum ekki staðfesta hópinn vegna A-karla. Við erum í óvissu með leikinn í Þýskalandi, það er ástæðan,“ sagði Davíð Snorri Jónasson þjálfari U21 árs landsliðs karla eftir að hafa tilkynnt hóp sinn fyrir lokamót A-karla.
Hópurinn var birtur á vef UEFA á þriðjudag en A-landslið karla staðfesti hóp sinn í gær.
Mótið er tvískipt, en riðlakeppnin fer fram núna í mars og 8-liða úrslit, undanúrslit og úrslit í sumar. Ísland er í riðli með Rússlandi, Danmörku og Frakklandi og leikur alla leiki sína í Györ í Ungverjalandi. Leikirnir þrír verða í beinni útsendingu á RÚV.
Meira:
KSÍ staðfestir hópinn sem lak út í fyrradag
Strákarnir hefja leik gegn Rússlandi 25. mars, mæta Dönum 28. mars og enda svo riðlakeppnina á leik gegn Frökkum 31. mars.
Davíð tók við liðinu í upphafi árs en þetta er hans fyrsta verkefni með liðið, tíminn er lítill til að undirbúa liðið. „Allir leikmenn koma á mánudag, við æfum þá og svo þriðjudag og miðvikudag. Leikur á fimmtudag, við þurfum að nýta tímann vel.“
Mikael Neville Anderson neitaði að mæta í síðasta verkefni U21 árs landsliðið en þá voru Arnar Þór og Eiður Smári Guðjohnsen þjálfarar. „Samtalið var mjög gott, það var ekki á minni vakt. Mikki er klár í slaginn og mjög spenntur, það var mjög gott samtal.“
Davíð greindi frá því að Jón Dagur Þorsteinsson yrði fyrirliði liðsins en þjálfarinn ætlar að byggja á sama grunni „Ég held að það sé mjög mikilvægt að byggja á sama grunni, ég get ekki farið inn og ætlað að vera annar en ég er. Ég mun halda í, eftir að hafa talað við hópinn. Við erum að vinna saman daglega, það er samvinna á milli landsliðs. VIð byggjum á sterkum grunni, þetta er mót búið í júní. Það var kynslóðaskipti í þessu liði því leikmenn ganga upp úr því.“