Zlatan Ibrahimovic, leikmaður AC Milan, hefur náð sér af meiðslum og verður til taks í leik liðsins gegn Manchester United í Evrópudeildinni á morgun. Þetta staðfesti, Stefano Pioli, knattspyrnustjóri AC MIlan.
„Ibrahimovic hefur náð sérm, á morgun verður hann til taks,“ sagði Pioli á blaðamannafundi.
Ólíklegt er þó að Zlatan sé klár til þess að spila 90. mínútur.
„Ég er ekki viss um að hann geti spilað í 90. mínútur,“ sagði Pioli.
Zlatan meiddist í leik gegn Roma þann 28. febrúar síðastliðinn og hann hefur verið frá síðan þá.
Hinn 39 ára gamli sænski framherji, hefur verið í frábæru formi á tímabilinu. Hann hefur komið við sögu í 21 leik með AC Milan, skorað 16 mörk og gefið tvær stoðsendingar.
Um seinni viðureign AC Milan og Manchester United er að ræða í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Fyrri leikur liðanna endaði með 1-1 jafntefli en sá leikur fór fram á Old Trafford.
Ætla má að Zlatan vilji ólmur mæta Manchester United á morgun en hann lék með félaginu á árunum 2016-2018. Hjá Manchester United spilaði hann 53 leiki, skoraði 29 mörk og gaf 10 stoðsendingar.