Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United, stjórnar þættinum Vibe with Five á YouTube. Í nýjasta þættinum ræddi hann hvernig United ættu að fara að því að koma norska framherjanum Erling Håland til sín.
„Hann elskar augljóslega enskan fótbolta, pabbi hans spilaði hér. Einn af draumum hans er að koma og spila í Englandi. Hvers vegna ekki í rauðri treyju á Old Trafford,“ sagði Ferdinand.
Eitt af vandamálunum við það að fá Håland til Manchester er að umboðsmaður hans er hinn umdeildi Mino Raiola. Hann er umboðsmaður leikmanna á borð við Paul Pogba og Zlatan Ibrahimovic sem báðir hafa spilað með Manchester United. Raiola og Ed Woodward, framkvæmdastjóri United, eru ekki bestu vinir en mikið vesen hefur skapast í kringum Paul Pogba vegna hans.
„Stundum þarf að dansa við djöfulinn því þegar leikmaður eins og Håland kemur, þá er hann að fara að vera þarna í tíu ár,“ segir Ferdinand en hann líkir þarna Raiola við djöfulinn vegna vandræða sem hann hefur skapað innan herbúða United.