Fyrsti landsliðshópur Arnars Þórs Viðarsonar og Eiðs Smára Guðjohnsen var kynntur í dag. Það var lítið sem kom á óvart með hópinn og eru allir helstu leikmenn landsliðsins síðustu ára á sínum stað í hópnum, fyrir utan Alfreð Finnbogason, sem er meiddur, og Viðar Örn Kjartansson.
Það vakti athygli netverja þegar KSÍ birti mynd af hópnum á síðu sína þar sem má sjá myndir af leikmönnum í landsliðstreyjunni. Tveir leikmenn landsliðsins hafa aldrei spilað landsleik í nýju landsliðstreyjunum frá Puma, þeir Alfons Sampsted og Björn Bergmann Sigurðarson. Því þurfti að notast við myndvinnsluforrit til að gera mynd af þeim í treyjunni. Það hefur ekki verið mikil vinna lögð í þessa vinnslu, þá sérstaklega á Birni Bergmann.
Alvöru myndvinnsla þarna á ferð pic.twitter.com/F0k7ZF4uKP
— Popptíví kynslóðin (@IslenskN) March 17, 2021
Það er ansi mikill litarmunur á skjannahvítu andliti Björns og tönuðu höndum hans á myndinni. Einnig passar haus hans voða illa við restina af líkamanum og því ljóst að þetta er ekki hann frá toppi til táar.