Tveir leikir fóru fram í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Manchester City tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum með sigri á Gladbach frá Þýskalandi og Real Madrid tryggði sér einnig sæti í næstu umferð með sigri á Atalanta.
Manchester City tók á móti Gladbach á Puskas vellinum í Budapest. Um seinni leik liðanna var að ræða en Manchester City vann fyrri leikinn 2-0.
Það var Kevin De Bruyne sem kom Manchester City yfir í leik kvöldsins með marki á 12. mínútu. Aðeins fimm mínútum síðar innsiglaði Ilkay Gundogan síðan 2-0 sigur þeirra bláklæddu með marki eftir stoðsendingu frá Phil Foden.
Manchester City tryggði sér þar með sæti í 8-liða úrslitum keppninnar með samanlögðum 4-0 sigri.
Á Spáni tóku heimamenn í Real Madrid á móti ítalska liðinu Atalanta. Fyrri leik liðanna lauk með 1-0 sigri Madrídinga.
Karim Benzema kom Real Madrid yfir í leik kvöldsins með marki á 34. mínútu. Það var síðan Sergio Ramos sem bætti við öðru marki liðsins á 60. mínútu úr vítaspyrnu.
Luis Muriel minnkaði muninn fyrir Atalanta á 83. mínútu en það var Asensio, leikmaður Real Madrid, sem innsiglaði 3-1 sigur liðsins með marki á 85. mínútu.
Real Madrid fer því áfram í 8-liða úrslit með samanlögðum 4-1 sigri úr einvíginu.
Manchester City 2 – 0 Gladbach (Samanlagt 4-0 sigur Man City)
1-0 Kevin De Bruyne (’12)
2-0 Ilkay Gundogan (’18)
Real Madrid 3 – 1 Atalanta (Samanlagt 4-1 sigur R.Madrid)
1-0 Karim Benzema (’34)
2-0 Sergio Ramos (’60, víti)
2-1 Luis Muriel (’83)
3-1 Asensio (’85)