Hólmfríður Magnúsdóttir, hefur ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna eftir farsælan feril. Hólmfríður tilkynnti um þessa ákvörðun sína á Facebook síðu sinni í kvöld.
„Eftir 20 ára feril í meistaraflokk hef ég tekið þá ákvörðun að taka af mér legghlífarnar og koma takkaskónum fyrir uppá hillu,“ segir í færslu Hólmfríðar.
Hólmfríður hóf meistaraflokksferil sinn með KR, þá aðeins 16 ára gömul. Hún hefur síðan þá spilað í Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum og Noregi.
Hólmfríður á að baki 113 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði hún 37 mörk í þeim leikjum. Hún hefur verið einn af máttarstólpum íslenska landsliðsins um árabil, tók þá í lokakeppni EM árin 2009, 2013 og 2017 og komst í sögubækurnar er hún skoraði fyrsta mark Íslands á stórmóti í leik gegn Frakklandi á EM árið 2009.
Þá á hún að baki 156 leiki í efstu deild á Íslandi þar sem hún vakti athygli fyrir mikla og góða markaskorun. Alls skoraði hún 121 mark í efstu deild á Íslandi.
„Mig langar til að þakka öllum liðsfélögum í gegnum ferilinn, öllum þjálfurunum sem ég hef haft og ýttu mér áfram í að ná árangri, öllum fyrirmyndunum mínum og þá sérstaklega Olgu Færseth sem var eins og mamma mín á vellinum, KSÍ fyrir landsliðsárin og ómetanlega hjálp bæði innan og utanvallar, fyrir öll góðu árin í KR og að lokum Selfossi fyrir að hafa kveikt neistann eftir barnsburð.“
Skórnir á hilluna
Eftir 20 ára feril í meistaraflokk hef ég tekið þá ákvörðun að taka af mér legghlífarnar og koma…
Posted by Holmfridur Magnusdottir on Tuesday, March 16, 2021