Sjónvarpsþáttur 433 fer í loftið á Hringbraut og á vefnum klukkan 21:30 í kvöld. Gestur þáttarins að þessu sinni er Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður er að margra mati besti knattspyrnumaður í sögu Íslands, undir lok ferilsins benti fátt til þess að Eiður væri á leið út í þjálfun. Sjálfur talaði hann eins og ástríðan væri á öðru sviði en það hefur breyst.
Í rúm tvö ár hefur Eiður Smári starfað í þjálfun, hann var aðstoðarþjálfari U21 árs landsliðsins sem fór í annað sinn í sögunni inn á Evrópumótið. Hann tók svo við FH síðasta sumar með Loga Ólafssyni og náði góðum árangri í Kaplakrika.
„Ég sá þetta ekki fyrir sjálfur,“ segir Eiður Smári í þætti kvöldsins um skrefið út í þjálfun.
„Ég fann ekki fyrir þessari löngun þegar ég var að spila að fara út í þjálfun. Ég byrja að taka þjálfaragráðurnar og fann fyrir neista þar, svo opnuðust þessi tækifæri og það hefur gengið nokkuð vel“
Eiður er í dag aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins en hvernig þjálfari er hann. „Ég held að ég sé blanda af því að vera laufléttur og grjótharður.“
Viðtalið við Eið Smára eins og fyrr segir á Hringbraut klukkan 21:30 í kvöld og á sama tíma á vefnum.