Mads Timm segir að Cristiano Ronaldo hafi verið lagður í einelti þegar hann kom fyrst til Manchester United árið 2003. Timm var í herbúðum félagsins á þeim tíma.
Timm sem kemur frá Danmörku gekk í raðir Manchester United árið 2000, hann var þá 16 ára gamall þegar hann fluti yfir til Englands og samdi við enska stórliðið.
Hann æfði með Ronaldo í eitt ár en snillingurinn frá Portúgal gekk í raðir félagsins árið 2003.
„Hann var hreint magnaður knattspyrnumaður en einnig frábær persóna,“ segir Timm um tíma sinn með Ronaldo.
Timm segist hafa verið lagður í einelti þegar hann kom til félagsins, Ronaldo hafi fengið sömu meðferð. „Eins og ég þá var hann lagður í einelti þegar hann kom til félagsins. Það var gert grín að hárinu hans, sem hann lét hverfa fljótlega. Svo var honum strítt fyrir að reyna að heilla þjálfara félagsins of mikið.“
Timm lék aðeins einn leik fyrir United en þegar hann var tvítugur yfirgaf hann félagið og spilaði á Norðurlöndum eftir það. „Ronaldo gat tekið 10-15 skæri án þess að fara framhjá manni.“