Alfreð Finnbogason, leikmaður Augsburg í Þýskalandi og íslenska landsliðsins var í ítarlegu viðtali sem birtist á heimasíðu þýska knattspyrnusambandsins í dag.
Alfreð hefur verið að glíma við meiðsli og telur ólíklegt að hann verði klár fyrir næsta landsliðsverkefni íslenska landsliðsins. Íslands mætir einmitt Þýskalandi ytra þann 25. mars næstkomandi í undankeppni HM.
„Ég væri á betri stað ef ég væri heill heilsu, gæti spilað gegn Þýskalandi og skorað mark. En því miður er ólíklegt að ég geti spilað. En maður verður þó að vera jákvæður og horfa björtum augum á framtíðina.
Alfreð spilaði síðast leik fyrir Augsburg í janúar en hefur síðan þá glímt við þrálát meiðsli.
Alfeð hefur átt samtöl við Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfara um verkefnið sem er framundan.
„Ég talaði við landsliðsþjálfarann í síðustu viku. Það lítur allt út fyrir að ég geti ekki tekið þátt í næsta verkefni vegna meiðsla. Kálfinn er enn að valda mér vandræðum.“
„Ég er kominn langt á veg í endurhæfingunni, hlutirnir fóru hins vegar ekki alveg eftir áætlun og sökum þess hægðist á bataferlinu. Ég tel samt sem áður að ég muni ná að spila nokkra leiki til viðbótar á tímabilinu,“ sagði Alfreð Finnbogason.