Cristiano Ronaldo, leikmaður Juventus, hefur fengið mikla gagnrýni á sig eftir að Juventus féll úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu geng portúgalska liðinu Porto.
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Ronaldo hjá ítalska stórveldinu en talið er að Juventus vilji losa sig við kappann sem er á ofurlaunum hjá félaginu.
Ronaldo hóf raust sína á samfélagsmiðlum og blés á gagnrýnisraddir.
„Það sem skiptir meira máli en hversu oft þú fellur er hversu oft og hratt þú stendur aftur upp. Sannir meistarar brotna aldrei,“ er meðal þess sem Cristiano Ronaldo skrifaði á samfélagsmiðlinum Instagram.
Ronaldo hefur unnið flesta af helstu titlum sem hægt er að vinna með félags- og landsliðum. Þá hefur hann í fjórgang verið valinn besti leikmaður í heimi.
„Sögunni verður ekki eytt, hún er skrifuð á hverjum einasta degi með seiglu, liðsanda, þrautseigju og erfiðisvinnu,“ skrifaði Ronaldo á Instagram.
Talið er að möguleiki sé að því að Ronaldo snúi aftur til Real Madrid en Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri liðsins, neitaði að útiloka endurkomu Ronaldo til félagsins.
View this post on Instagram