Knattspyrnumenn eru fæstir þekktir fyrir að vera miklir rólyndismenn, reglulega eru sagðar sögur af djammi knattspyrnumanna, slagsmálum og öðrum skandölum sem tengjast áfenginu. WTFoot ákvað að taka saman lista yfir atvik þar sem knattspyrnumenn höfðu fengið sér aðeins of marga sopa.
Harry Maguire
Harry Maguire, varnarmaður Manchester United, er fyrstur á listanum en atvikið hans er líka ansi nýlegt. Í lok síðasta sumars var Maguire mikið í fréttum en þá var hann staddur í fríi á Grikklandi. Maguire varð nokkuð fullur en segist þó hafa bara fengið sér „nokkra drykki“. Þessir nokkru drykkir sem hann talar um komu honum þó í vandræði. Hann var til að mynda sakaður um að hafa mútað lögreglunni á svæðinu eftir að hafa lent í slagsmálum.
Nicklas Bendtner
Danska knattspyrnustjarnan Nicklas Bendtner var og er ennþá í miklu uppáhaldi hjá mörgum knattspyrnuáhugamönnum heimsins. Í grein WTFoot er sagt frá því þegar Bendtner haði fengið sér aðeins of mikið í heimalandi sínu þar sem hann fylgdist með liðsfélögum sínum í Arsenal tapa fyrir Bayern Munchen.
Bendtner var ekki hluti af Arsenal liðinu og sat því á bar í Danmörku og horfði á leikinn. Eftir tapið tók hann leigubíl heim til sín en hann er sagður hafa ráðist á leigubílsstjórann. Eftir það á hann að hafa farið úr buxunum og nuddað sér upp við bílinn á meðan hann talaði um að njóta ásta með bifreiðinni.
Mario Balotelli
Ítalska stjarnan verður seint þekktur fyrir að halda sér frá vandræðunum. Eitt skipti var hann að djamma með vinum sínum en þeir voru víst afar fullir þetta föstudagskvöldið. Áfengið á víst að hafa fengið þá til að keyra inn í kvennafangelsi á svæðinu en þeir sögðu að ástæðan fyrir því hafi verið að þeir vildu sjá hvernig það liti út að innan.
Adrian Mutu
Þessi fyrrum leikmaður Chelsea, Inter Milan, Juventus, Fiorentina og fleirri liða, hefur ekki haldið sig frá vandræðunum utan vallar. Hann var til að mynda eitt sinn í banni yfir heilt tímabil fyrir að nota kókaín, þá fór hann einnig í slagsmál á veitingastað á Ítalíu vegna rifrildis um reikninginn. Í dag þjálfar hann undir 21 árs landslið Rúmeníu.