Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, telur að miðvarðapar liðsins, þeir Virgil Van Dijk og Joe Gomez, muni líklega missa af Evrópumóti landsliða sem fram fer í sumar.
Báðir leikmennirnir hafa verið lengi frá vegna meiðsla, Van Dijk meiddist á hné í október og Gomez meiddist í landsliðsverkefni með Englandi í nóvember.
„Gomez er ekki farinn að hlaupa, Van Dijk er farinn að hlaupa en þetta er erfið staða,“ sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Evrópumótið fer fram dagana 11. júní til 11. júlí, mótið átti að fara fram síðasta sumar en kórónuveirufaraldurinn kom í veg fyrir það.
Klopp segist ekki myndu standa fyrir því að leikmennirnir færu á mótið, málið snúist ekki um það.
„Það er ekki það að ég vilji ekki leyfa þeim að fara á mótið, þetta snýst allt um umfang þeirra meiðsla. Við vonumst til þess að þeir verði klárir á undirbúningstímabilinu fyrir næsta tímabil.“
„Þetta eru alvarleg meiðsli og nú er ekki tímapunkturinn til þess að ræða hvort þeir geti tekið þátt í einstaka keppnum,“ sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.