Crystal Palace fékk West Bromwich Albion í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í dag. Bæði liðin eru í neðri hluta deildarinnar og WBA svo gott sem fallnir.
Það vantaði ekki færin í leikinn en framherjar beggja liða áttu erfitt með að ná góðum skotum á mark andstæðingsins.
Á 37. mínútu leiksins fékk Darnell Furlong, bakvörður WBA, boltann í hendina í sínum eigin vítateig og fékk dæmda á sig vítaspyrnu. Serbinn Luka Milivojevic steig á punktinn og skoraði framhjá Sam Johnstone í marki WBA.
Fleiri voru mörkin ekki og Crystal Palace lyfta sér upp í ellefta sæti deildarinnar og eru nánast búnir að gulltryggja sæti sitt í deildinni. WBA eru aftur á móti í nítjánda sæti með aðeins átján stig, átta stigum frá öruggu sæti.