Romelu Lukaku, leikmaður Inter Milan á Ítalíu, hefur undanfarið spilað virkilega vel en tímabilið í ár er eitt það besta á ferlinum hans. Hann telur sig vita ástæðuna á bakvið velgengnina.
Lukaku ræddi við næringarfræðinginn Matteo Pincella á dögunum en þar sagði knattspyrnustjarnan að lykillinn að velgengninni sé maturinn sem hann borðar við Miðjarðarhafið. Hann viðurkenndi að hafa verið í lélegu formi þegar hann spilaði með Manchester United en það vandamál er úr sögunni.
Hann segist aðallega borða salat, fisk, kjúkling og pasta á Ítalíu. „Ég breyti mataræðinu ekki mikið því ég þarf að vera sterkur fyrir leikinn sem við spilum, við hlaupum mikið og síðan ég byrjaði á þessu mataræði líður mér betur á vellinum. Ég er fljótari að hlaða batteríin og ég er hraðari,“ sagði Lukaku í viðtalinu.
Svo virðist vera sem þetta mataræði sé að hjálpa honum en Lukaku hefur skorað 18 mörk í ítölsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Það hefur hjálpað Inter Milan mikið því liðið er sem stendur í efsta sæti deildarinnar og á góðan möguleika á að vinna deildina í fyrsta skipti síðan árið 2010.