Everton og Burnley mættust í dag á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley en Gylfi Þór Sigurðsson sat á varamannabekk Everton.
Burnley-menn komust yfir á þrettándu mínútu leiks með marki frá Chris Wood eftir hræðileg mistök Tom Davies á miðju Everton. Dwight McNeil tvöfaldaði síðan forskot gestanna með frábæru marki. Dominic Calver-Lewin minnkaði muninn á 32. mínútu og stóðu leikar 2-1 fyrir Burnley í hálfleik. Stuttu áður en flautað var til hálfleiks fór Jordan Pickford, markvörður Everton, meiddur af velli og kom hinn ungi Joao Virginia inn á í hans stað.
Jóhann Berg var tekinn útaf á 66. mínútu en Gylfi kom ekkert inn á í leiknum og því fengum við ekki að sjá þá félagana kljást.
Ekkert var skorað í seinni hálfleik og fagna Burnley sterkum þremur stigum. Þeir koma sér fjær fallsæti og eru nú með 33 stig í fimmtánda sæti en Everton eru í því sjötta með 46 stig. Þeir hefðu getað lyft sér upp í fimmta sæti deildarinnar, sem gefur þeim sæti í Evrópudeildinni, en ekkert varð úr því.