CSKA Moskva heimsóttu Arsenal Tula í rússnesku úrvalsdeildinni í dag. Hörður Björgvin Magnússon byrjaði leikinn í vinstri bakverðinum en Arnór Sigurðsson sat á bekknum.
Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks braut Baktiyor Zaynutdinov af sér innan vítateigs og fengu Arsenal-menn víti. Vladislav Panteleev skoraði úr spyrnunni og í uppbótartíma fyrri hálfleiks tvöfölduðu heimamenn forystuna með marki frá Aleksandr Lomovitski.
Arnór kom inn á sem varamaður á 61. mínútu og í uppbótartíma leiksins minnkuðu CSKA muninn með marki frá Nayair Tiknizyan. Arsenal-menn fengu tvö rauð spjöld stuttu eftir það, fyrir kjaftbrúk og leiktöf en það breytti litlu og sigruðu þeir með tveimur mörkum gegn einu.
CSKA hefði getað komið sér á toppinn með sigri en þeir sitja enn í öðru sæti deildarinnar.